Ársskýrsla 2017
Ábyrg verðmætasköpun úr sjávarfangi
Vilhjálmur Vilhjálmsson
forstjóri HB Granda hf.

Ávarp forstjóra

Árið var viðburðaríkt í rekstri félagsins og hófst með lengsta verkfalli sjómanna til þessa, en það leystist 18. febrúar.

Söguleg endurnýjun togaraflota félagsins átti sér stað og tók félagið á móti þremur nýjum ísfisktogurum á árinu, Engey, Akurey og Viðey. Frystitogarinn Þerney, ísfisktogarinn Ásbjörn og uppsjávarskipið Lundey voru seld og afhent á árinu. Einnig var gengið frá sölu á ísfisktogaranum Ottó N. Þorlákssyni en hann verður afhentur í maí 2018.

Í júní var skrifað undir samning um smíði á stórum og öflugum frystitogara við spænsku skipasmíðastöðina Astilleros Armon Gijon. Afhending togarans er áætluð um mitt ár 2019.

Í maí var tekin ákvörðun um að leggja af botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi. Síðasti vinnsludagur á Akranesi var 31. ágúst og sameinaðist sú vinnsla sem þar var botnfiskvinnslu félagsins í Reykjavík þann 1. september. Vinnslunni í Reykjavík hefur gengið vel að ráða við aukin verkefni.

Nýju uppsjávarskip félagsins, Venus og Víkingur, hafa reynst vel og voru tvö aflahæstu skip íslenska flotans árið 2017.

HB Grandi hf. hefur í vaxandi mæli látið til sín taka hvað varðar umhverfismál. Félagið á allt undir umhverfinu og ber því að vera til fyrirmyndar í umgengni sinni. Félagið hlaut meðal annars Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2017.

Stofnað var sérstakt mannauðssvið innan félagsins á árinu sem hefur umsjón með mannauðsmálum, faglegri ráðgjöf, túlkun kjarasamninga, eftirliti með starfsmannastefnu, fræðslu, þróun hópvinnukerfa og innri vefs, ásamt móttöku og mötuneyti í Norðurgarði.

Unnið var í stefnumótun félagsins þar sem stefna HB Granda hf., sem byggir á sterkum grunni úr rekstri HB Granda hf. undanfarin ár, var sett niður, með það að markmiði að hún nýtist starfsfólki og hagsmunaaðilum. Stefna félagsins liggur nú formlega fyrir og er hún afrakstur samstarfs margra innan félagsins. Sameinast hefur verið um hlutverk, gildi og framtíðarsýn félagsins til næstu ára.

Hlutverk HB Granda hf. er ábyrg verðmætasköpun úr sjávarfangi enda byggir félagið ábatasaman rekstur sinn á sjálfbærum sjávarútvegi sem er forsenda þess að félagið geti lagt sinn skerf til samfélagsins en jafnframt tryggt starfsfólki sínu öruggt vinnuumhverfi og samkeppnishæf laun. Gildin eru ábyrgð, stolt og virðing.

Framtíðarsýn félagsins birtist í orðunum "mótum framtíð sjálfbærs sjávarútvegs", þar sem stefnan er að gera starfsemi félagsins ábyrgari, hagkvæmari og skilvirkari.

Ég vil þakka frábæru samstarfsfólki HB Granda hf. fyrir vel unnin störf á árinu, stjórn félagsins fyrir þeirra framlag í þágu HB Granda hf. og viðskiptavinum og öðrum samstarfsaðilum fyrir gott samstarf á árinu 2017.