HB Grandi hf. gefur nú út sína fyrstu ársskýrslu um ófjárhagslega þætti starfseminnar í samræmi við Global Reporting Initiative-viðmið (GRI). Meðal umfjöllunarefna eru hagræðing í rekstri, umhverfisverkefni, stafrænar lausnir, mannauðsmál, öryggismál og ýmis samfélagsverkefni.
Samfélagsskýrsla HB Granda hf. er nú aðgengileg á rafrænu formi með því að smella á hnappinn hér fyrir ofan.
Unnið var að stefnumótun félagsins á árinu 2017. Þar var tekið tillit til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa félagsins. Framtíðarsýn HB Granda hf. er „mótum framtíð sjálfbærs sjávarútvegs“. Þannig er stefnt að því að í allri starfsemi félagsins sjáist að félagið er meðvitað um þá miklu ábyrgð sem það ber gagnvart auðlindum til sjós og lands og samfélaginu sem heild.
Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvallargildi í allri starfsemi HB Granda hf. Lögð er áhersla á að nýta auðlindir hafsins ævinlega af virðingu og ábyrgð og fullnýta þann afla sem skip félagsins færa að landi. Þetta er gert svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta og nýta þá miklu auðlind sem er ríki hafsins.
Bætt umgengni við umhverfið er eitt af stóru málunum innan sjávarútvegsins. Mikið hefur verið gert í þeim tilgangi að minnka kolefnisfótspor félagsins og öðlast heildræna yfirsýn um umhverfisáhrif þess á stafrænan hátt. Sú vegferð hefur skilað sér í árlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Starfsfólkið er kjölfestan í allri starfsemi HB Granda hf. og jafnframt meginauðlind þess. Félagið er stolt af framlagi sínu til samfélagsins og þeirri félagslegu uppbyggingu sem þar á sér stað.